Völundarhús lífsins - Margir heimar í okkar litla heimi

Lífið er undarlegt ferðalag. Ferðalag okkar allra. Við ferðumst um völundarhús lífsins sem hefur að geyma marga heima. Heimurinn sem við búum í (eða var það jörðin?) var einu sinni flatur og náði út að endimörkum sjóndeildarhrings þeirra sem víðast ferðuðust. Ferðamátinn var einfaldur - menn ferðuðust fótgangandi, ríðandi eða siglandi. Síðar kom að því að við uppgötvuðum að heimurinn var ekki flatur heldur hnöttóttur og við lærðum að fljúga líka. Nú ferðumst við á hljóðhraða um heiminn og sum okkar á enn meiri hraða um geiminn.

Við þekkjum, vitum og kunnum margt sem við höfum ekki reynt því við getum ferðast um í hugarheimi okkar og úr varð ímyndaður heimur miðla; menntunar, lista og afþreyingar. Nýjasti ferðamátinn okkar er ferðalag um netheima sem býr yfir mörgum heimum og einn þeirra er bloggheimur. Við búum til orð yfir nýjar hugmyndir og gefum þeim tilvist. Tækni og vísindi styðja þetta ferðalag okkar og við fögnum nýjum uppgötvunum sem bæta við litróf lífsferðalags okkar. Hugurinn er öflugt tæki og við ferðumst oft um í hugarheimi okkar.

Við ráfum um í þessu völundarhúsi lífsins. Við eigum landakort og vegakort fyrir ferðalög okkar um heiminn en ekkert kort fyrir lífsferðalag okkar. Nýjar leiðir opnast daglega, og við þvælumst um á vegferð okkar, oft á tíðum hálf stjórnlaus og dregin áfram af misgáfulegum hugmyndum og misvitrum leiðtogum sem við eltum. Við þykjumst stundum vita hvert við erum að fara og svo göngum við inn í einn enn ranghalann eða blindgötuna. Játum okkur sigruð, hvílumst um stund, stöndum síðan upp aftur og leitum af nýri hugmynd eða nýjum leiðtoga til að elta.

Er þetta völundarhús lífsins eitt eða eru þau mörg? Bý ég í sama húsi og þú? Hef ég einstaklingshuga sem er aðskilinn þínum og er minn hugarheimur þá annar enn þinn? Eða búum við í raun í sama hugarheimi; höfum bara ekki ferðast um sömu svæðin? Erum við bæði strengjabrúður einhvers(ra) leikstjórnanda sem við ekki þekkjum eða þekkjum? Er efnisheimurinn ekki til eða er hann að víkja fyrir ímynduðum heimi sem við erum smátt og smátt, sum eða öll, að flytja í? Erum við stöðugt að færast nær því að skapa heim í jarðvistinni sem líkist vistinni að henni lokinni? Erum við andlegar verur í leit að jarðneskri reynslu eða jarðneskar verur í leit að andlegri reynslu? Er raunveruleikinn efnislegur, andlegur eða huglægur? Er hann sá sami og hann hefur alltaf verið eða er ekkert raunverulegt? Er Guð til eða er maðurinn Guð? Hvað hefur Guð skapað og hvað hefur maðurinn skapað? Eru mörkin milli þess raunverulega, skapaða og ímyndaða að hverfa eða voru aldrei nein mörk? Eru mörkin milli þín og min til? Eru þau raunveruleg, ímynduð eða sköpuð? Eru margir heimar í okkar litla heimi? Eða er okkar litli heimur hluti af mörgum heimum? Er heimsendir í nánd? Eða erum við bara rétt að byrja að nýta möguleika okkar í heiminum?

Hvað segir þú?


Um bloggið

Guðbjörg Pétursdóttir

Höfundur

Guðbjörg Pétursdóttir
Guðbjörg Pétursdóttir

Í hjartans einlægni

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband